Endurminningaleikhús – Hvað er það?

Umsjónaraðili verkefnisins
Andrea Katrín Guðmundsdóttir útskrifaðist árið 2010 frá East 15 Acting School með BA gráðu í samfélagslegu leikhúsi (Community Theatre). Frá útskrift hefur hún sinnt leiklistarkennslu og leikstjórn, meðal annars með unglingum, börnum, atvinnulausum og fötluðum einstaklingum. Hún hefur einnig haft umjón með skipulagningu viðburða líkt og tónleika og listahátíðar. Meðfram þessu hefur Andrea starfað sem flugliði hjá Air Iceland Connect (fyrrum Flugfélag Íslands).

Um þessar mundir er Andrea Katrín að ljúka mastersnámi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Uppsetning á endurminningaleikhúsi í samstarfi við Félagsstarf eldri borgara í Mosfellsbæ og FaMOs er lokaverkefni Andreu Katrínar í náminu.

Bakgrunnur verkefnisins
Andrea Katrín kynntist endurminningaleikhús (e. reminiscence theatre) í námi sínu í Englandi. Þar í landi er hefðin rík fyrir samfélagslegu leikhúsi og fékk Andrea Katrín tækifæri til að vinna með leikfélaginu Age Exchange, sem er frumkvöðull í þessari tegund leiklistar.

Endurminningaleikhús snýst um að skapa leiksýningu með eldri borgum sem byggist á endurminningum þeirra. Andrea Katrín hefur lengi átt þann draum að kynna þessa tegund leikhúss til sögunnar á Íslandi, þar sem henni hefur þótt vanta fjölbreytni í félagsstarf eldri borgara. Sérstaklega í ljósi þess að þessi samfélagshópur fer sístækkandi og þarfir einstaklinga innan hans mjög ólíkar.

Helsta markmið þessa verkefnis er að skapa skemmtilegan vettvang fyrir eldri borgara til að koma saman og ræða endurminningar sínar. Ýmis tæki eru notuð til að koma umræðunum af stað, líkt og tónlist, ljósmyndir, leiklistaæfingar og fleira. Þátttakendur eru svo hvattir til að taka þátt í sýningunni að því marki sem þeir treysta sér til eða hafa áhuga fyrir. Sýningin er svo ætluð fyrir fjölskyldu og vini þátttakenda, sem og aðra eldri borgara í Mosfellsbæ. Sýnt verður í samkomusalnum á Eirhömrum.