Gaman saman

Gaman saman er samstarfsverkefni eldri borgara, FaMos, Vorboða, félagsstarfsins og ungmenna í Mosfellsbæ.

Gaman saman

Samstarf eldri borgara og ungmenna í Mosfellsbæ

Samstarfsverkefni FaMos, Vorboða og félagsstarfs eldri borgara í Mosfellsbæ

Á vordögum 2012 boðaði menningarmálanefnd Mosfellsbæjar til fundar og tilefnið var að veita stjórn FaMos viðurkenningu fyrir jafnréttismál.

Á fundinum var m.a. rætt um hvað ungir og aldnir gætu gert sé til gagns og gamans saman og var fundargestum skipt upp í hópa sem áttu síðan að gera grein fyrir helstu niðurstöðum og kom margt áhugavert  til umræðu.

Í hópnum, þar sem undirrituð lenti, var m.a. Elva Björg Pálsdóttir, forstöðumaður félagsstarf aldraðra á Eirhömrum, og þar sem ég var fulltrúi Vorboða kórs eldri borgara í Mosfellsbæ var söngur mér efst í huga.  Úr varð að við Elva og þáverandi formaður FaMos, Ragnheiður Stephensen,  ákváðum að efna til viðburðar þar sem boðnir væru aldraðir íbúar Mosfellsbæjar, Eirhamra og  Hamra svo og leikskólabörn, og hlaut viðburður þessi nafnið Gaman saman.

Síðan þessi fundur var haldin eru liðin 7 ár og Gaman saman hefur vaxið og dafnað, allir leikskólar bæjarins hafa tekið þátt svo og Skólahljómsveit Mosfellsbæjar, Skólakór Varmárskóla og Listaskóli Mosfellsbæjar ásamt fleiri gestum. Fljótlega kom til sögunnar Páll Helgason heitinn, sem annaðist undirleik á píanó, en síðastliðin ár hefur Helgi R. Einarsson annast undirleik á gitar en hann fer í alla leikskóla bæjarins og lætur börnin syngja svo að þau koma vel undirbúin til leiks.

Gaman saman er samstarfverkefni FaMos, Vorboða og félagsstarfsins og hafa margir komið þar að til aðstoðar á einn eða annan hátt en hitan og þungan hafa samt borið undirrituð, Bjarney Einarsdóttir og Guðríður Pálsdóttir.

Samantekt: Úlfhildur Geirsdóttir

Frá og með hausti 2019 er Gaman saman í umsjá félagsstarfsins að Eirhömrum.