Sumarferð FaMos til Færeyja með hringferð um landið dagana 12. – 20. júní 2019
12. júní
Að morgni miðvikudagsins 12. júní settust 40 eftirvæntingarfullir FaMosfélagar upp í rútu hjá hinum frábæra bílstjóra Guðna Runólfssyni. Ferðinni var heitið til Færeyja með Norrænu morguninn eftir. Farið var suðurleiðina en fyrsti náttstaður var Hótel Bláfell á Breiðdalsvík. Veðrið var upp á sitt besta, sól og hiti. Komið var víða við á leiðinni svo sem í Vik en á Kirkjubæjarklaustri beið okkar kraftmikil og afar bragðgóð kjötsúpa. Meðan beðið var eftir matnum gátu ferðalangar baðað sig í sólinni á þar til gerðum palli og sporðrennt nokkrum bjórdósum í leiðinni. Saddur og ánægður hópurinn hélt síðan áfram að Jökullóni þar sem skálað var (tekið til altaris) í boði FaMos. Næsti viðkomustaður var Djúpivogur en þar ríkti blankalogn svo bátaflotinn endurspeglaðist í sjávarfletinum. Að beiðni farþega renndi rútan sér meðfram fuglseggjum (listaverk) Sigurðar Guðmundssonar sem standa í röðum við höfnina. Loks var komið til Breiðdalsvíkur og á Hótel Bláfell hvar snæddur var kvöldverður. Farið var snemma til hvílu því að næsti dagur hófst í bítið með kjarngóðum morgunverði. Síðan ekið til Seyðisfjarðar með viðkomu á Egilsstöðum þar sem sóttur var viðurgerningur (brauðsamlokur m.m.), einnig í boði FaMos.
13. júní
Áætlað var að ferjan legði af stað kl. 10:30 en henni seinkaði eitthvað. Veður var áfram mjög gott og tilvalið að sitja uppi á dekki og fylgjast með útsiglingunni. Ýmislegt höfðu menn fyrir stafni fram eftir deginum þar til að sest var að kvöldverðarhlaðborði. Komutími til Þórshafnar var klukkan 03:00 að morgni svo að nætursvefn varð ekki ýkja langur.
14. júní
Nú beið vansveftum og brátt hungruðum Mosfellingum allerfiður tími þar sem að herbergin á Hótel Þórshöfn losnuðu ekki fyrr en undir hádegi. Engar búðir eða veitingastaðir voru opnir á svona ókristilegum tíma og komu sér aldeilis vel nestisbirgðirnar. Guðni bílstjóri tók á það ráð að rúnta með mannskapinn um bæinn í þokumóðunni og fór síðan með hálfsofandi hópinn alla leið í Kirkjubæ. Í framhaldinu fengum við að bíða inni á hótelinu eftir að herbergin losnuðu hvert af öðru. Undirrituð var sú síðasta sem hlotnaðist herbergislykill en þá var klukkan um tvö. Framundan var frjáls dagur en hótelið okkar var afar vel staðsett við höfnina og í nánd við Þinganes, þ.e. gamla bæinn. Baldvin Harðarson, leiðsögumaður okkar í Færeyjum, kom og hitti ferðanefndina og lagði á ráðin um framhaldið.
15. júní
Framundan var rútuferð til Gásadals á eyjunni Vogar. Nú bættust í hópinn átta FaMosfélagar á húsbílum, þ.e. fern hjón. Leiðin til Gása liggur um bæina Sörvog og Böur. Kíkt var inn í kirkjuna í Böur sem er frá árinu 1865, síðan var kominn tími á hópmynd. Á þessum slóðum blasa við hólmarnir Tindhólmur og Gáshólmur. Áfram lá leiðin í gegnum göng til Gásadals en göng þessi voru vígð árið 2004 en fram að því var þorpið án vegasambands við aðra bæi og bara hægt að komast þangað með þyrlu eða fótgangandi. Sum sé grafin göng fyrir íbúafjölda innan við 20 manns!! Í Gásadal var heimsótt lítil búðarhola sem rekin er af Íslendingi á staðnum og kíkt í kaffihús. Síðan var farið að skoða Múlafoss en þaðan sést vel til eyjarinnar Mykines. Að lokum lá leiðin yfir til Straumeyjar hvar snæddur var málsverður í Vestmanna.
16. júní
Nú var komið að rútuferð til Klakksvíkur og þaðan siglt í 20 mín. til Kalseyjar. Á leiðinni er farið yfir brú sem tengir eyjarnar Straumey og Austurey. Stundum grínast Færeyingar og segja þetta sé eina brúin yfir Atlantshafið. Í bænum Húsar á Kalsey var okkur boðið upp á þriggja rétta frábæran málsverð, söng, dans og margt fleira skemmtilegt. Ekki skemmdi fyrir að þar var opinn bar. Við komuna til Þórshöfn gekk fararstjórinn með þá sem vildu um gamla bæinn.
17. júní
Það gladdi sannarlega landann að sjá íslenska fánann blakta við hún á strætisvögnunum. Þegar líða tók á morguninn í ljómandi veðri gengum við fylktu liði með blaktandi fána í heimsókn í Tilhaldið en það gamla og fallega hús hýsir félagsstarf eldri borgara í Þórshöfn. Innandyra var okkur boðið upp á kaffi og kruðerí. Við hlýddum á formann félags eldri borgara lýsa félagsstarfinu og síðan var okkur boðið að ráfa um húsið og sjá hvað þar fór fram. Síðar þennan þjóðhátíðardag okkar Íslendinga var okkur ásamt öðrum Íslendingum í Þórshöfn boðið til veislu í Norðurlandahúsinu. Þar bauð gesti velkomna Pétur Thorsteinsson, ræðismaður Íslands, en Svavar Knútur, vísnasöngvari, skemmti gestum. Undir lok hófsins brast á brekkusöngur meðal gesta með dyggri aðstoð vísnasöngvarans.
18. júní
Nú var komið að því að skoða Kirkjubæ með opin augu. Kirkjubær er kóngsjörð þar sem Paturssonarættin hefur búið frá 1557. Af merkum minjum í Kirkjubæ er Ólafskirkja sem er frá 12. öld og er elsta kirkja Færeyja sem enn er í notkun,. Lítið er þó eftir af upphaflegu svipmóti hennar. Þar stendur líka Múrinn sem eru rústir af ófullgerðri dómkirkju sem byrjað var að reisa um 1300. Þessa rústir eru á heimsminjaskrá UNESCO. Auk þess að skoða þessar merku minjar kíktum við á byggðasafnið á staðnum. Við komu aftur til Þórshafnar skoðuðum við byggðasafnið þar í bæ auk þess sem beið okkar að heimsækja aðalræðiskrifstofuna sem hefur aðsetur í Þinganesi. Þar tók á móti okkur fyrrnefndur aðalræðismaður, ásamt aðstoðarkonu og rétt að geta þess að Baldvin, fararstjóri, starfar líka á skrifstofunni.
19. júní
Runnin upp frjáls heimfarardagur. Ferðanefndin (Margrét, Kristín og Snjólaug) ásamt Guðna bílstjóra og fáeinum öðrum kíktu í lystigarðinn skammt frá hótelinu en þar getur að líta skemmtilegar höggmyndir. Sjálfsagt hafa ýmsir kannað búðirnar. Komutími í skipið var 16:30 en áður en sest var upp í rútuna var Baldvini þökkuð frábær fararstjórn og honum afhent blóm m.m. Skipið sigldi úr höfn kl. 18:00 en frá skipinu blasti við fegurð staðarins. Af skipsferðinni er það að segja að sest var að snæðingi, kíkt í tollfrjálsu búðina og lagst til hvílu.
20. júni
Norræna lagðist að bryggju á Seyðisfirði kl. 08:30 en fjölbreyttur morgunverður var í skipinu frá kl. 07:00. Nú lá leiðin í norðurátt og fyrst var stoppað í Fjallakofanum í Möðrudal en í hádeginu fengum við hádegishlaðborð í Sel-Hóteli Mývatni. Síðan var brunað framhjá Akureyri og Blönduósi en stoppað í Gauksmýri þar sem við fengum okkur kaffi og meðlæti. Á pallinum utandyra var nú kominn tími á aðra altarisgöngu og þar var skálað fyrir okkar framúrskarandi bílstjóra og honum afhent gjöf í þakkarskyni. Loks var rennt í Mosfellsbæinn talsvert á undan áætlun og komið um kl. 22.
Hér með lýk ég alllangri frásögn minni af skemmtilegri og eftirminnilegri Færeyjarferð með frábærum samferðamönnum.
Allmargar myndir frá Færeyjaferðinni má sjá í myndasafninu.
Takk fyrir mig, Snjólaug Sigurðardóttir